top of page
Search

6 leiðir til að minnka magnið í stressfötunni og ná tökum á Dramadrottningunni


Ég veit að það eru margir áhyggjufullir og kvíðnir yfir aðstæðunum og framtíðinni. Hvernig mun þetta allt fara, hvenær verður þetta búið…

Ef að þú ert á þessum stað langar mig að þú vitir að það er fullkomlega eðlilegt að hugsa svona! Og að ákveðnu leiti er gott að við fáum smá áhyggjur, það gerir okkur varkár og setur okkur á tærnar. Og það er akkúrat það sem við þurfum núna. Vera varkár og hugsa áður en við framkvæmum.


Það hins vegar snýst uppí andhverfu sína og getur farið að skapa heilmikil vandamál og vanlíðan þegar við förum of langt í áhyggjunum og/eða dveljum í kvíðahugsunum. Þá missum við nefnilega hæfileikann til að hugsa rökrétt, sjáum allt miklu neikvæðara en það er, förum að haga okkur á hátt sem við myndum annars ekki gera...ég meina hver kaupir 6 mánaða byrgðir af klósettpappír án þess að vera með verulega í maganum, vitandi að það er hægt að fara í búðina í næstu viku eða fá sendar nokkrar rúllur...og kannski ennþá verra...hver fer að slást yfir klósettpappír?! Þetta er ekkert grín, það er fólk búið að vera í slagsmálum víða um heim yfir klósettrúllum!!

En þetta á sér allt eðlilegar skýringar, fólk er ekki endanlega búið að missa vitið þó að það hagi sér fáránlega eða sjái allt svart framundan.


Upptökin að þessari hegðun og hugsanamynstri koma frá frumstæða heilanum okkar (primitive brain) - Dramadrottningunni eins og ég kalla þennan hluta. Aðal hlutverk þessa hluta heilans er að passa uppá þig, vernda þig fyrir hættum, halda þér á tánum og láta þig bregðast hratt við ef að hætta steðjar að.

Þessi hluti heilans er mjög dramatískur og sér hlutina alltaf eins neikvæða og mögulegt er, sér hættur alstaðar og er viss um að allir séu stór hættulegir svikahrappar og allt fari á versta veg!


Það er mjög gott að hafa einhvern svona á varðbergi sem rýnir í aðstæður og er tilbúinn að láta okkur vita ef eitthvað er ekki eins og það á að vera, en það er ekki gott þegar þessi hluti nær yfirhöndinni og öskrar á okkur í sífellu að allt sé stórhættulegt!! Þá förum við að panikka!


Þetta er ekkert nýtt...þetta eru viðbrögð sem við þróuðum með okkur "back in the days" þegar við vorum Hellisbúar. Bráð nauðsynleg viðbrögð! Geturðu ýmindað þér hvernig lífið hefði verið í þá daga ef við hefðum ekki þróað með okkur þennan hluta heilans... Við værum ekkert að spá í það því við værum ekki til...allir hellisbúarnir hefðu verið étnir og við hreinlega dáið út.


Þegar við erum í þessum hluta heilans hugsum við alltaf mjög neikvætt, og því miður gufa þessar neikvæðu hugsanir ekkert upp þegar við hættum að hugsa um þær, ó nei...þeim er öllum safnað saman í Stressfötuna okkar. Það er eðlilegt að fara í gegnum tímabil þar sem við erum með áhyggjur og hugsum neikvætt, oftast veldur það okkur ekki vandamálum því við náum yfirleitt að tæma fötuna okkar þegar við sofum (REM svefn).


En við langvarandi aðstæður og/eða þegar álagið verður of mikið þá getum við farið að upplifa kvíða, reiði, pirring, þunglyndi og depurð eða jafnvel blöndu af þessu öllu.

Annað sem gerist oft í kjölfarið er að við förum að upplifa vandamál með svefn...annað hvort erfitt að sofna, vakna upp á nóttunni, vakna of snemma...eða jafnvel eiga erfitt með að vakna og komast framúr fyrir þreytu. Eða bland af þessu öllu!


Allt eru þetta einkenni þess að stressfatan okkar er orðin full og jafnvel farið að flæða uppúr!

En það er einmitt þegar stressfatan fer að fyllast sem við förum að haga okkur á óútskýranlegan hátt, bæði segja, gera og hugsa hluti sem við myndum undir venjulegum kringumstæðum ekki gera og vitum innst inni að eiga engann rétt á sér eða séu óþarfir.

Ótrúlegustu hlutir (og fólk) fara að fara í taugarnar á okkur, verkefni og vandamál sem okkur hefur fundist einfalt og auðvelt að leysa, verða allt í einu óyfirstíganleg og við sjáum bara engar mögulegar lausnir.


Oft gerist þetta svo rólega að við tökum ekki eftir því að við erum farin að synda í stressfötunni okkar...ekki fyrr en okkur finnst við hreinlega vera að drukkna og að við það að missa tökin.


Ok nú veistu að ef að þú ert á þessum stað núna eða að stefna þangað, þá er það ofur eðlilegt. Við erum öll stressuð yfir því sem er að gerast, með áhyggjur af því hvernig þetta muni allt fara og hvenær lífið verði aftur eðlilegt...og hvernig "eðlilegt" muni líta út hér eftir.

Svooo margar vangaveltur og spurningar sem enginn getur svarað.


Eins og þú ert líklega að fatta þá er það engan veginn hjálplegt að lifa og hrærast í þessum hluta heilans, við leysum engin vandamál þar, búum þau frekar til, en því miður eru mjög líklega um 80% af vesturlandabúum í þessum hluta heilans núna.


Þannig að mig langar að fara yfir nokkrar leiðir til að komast uppúr fötunni og hjálpa þér að vera í Skynsama-Vitsmuna hluta heilans. Þegar við erum þar erum við jákvæð, sjáum lausnir, erum róleg, hugrökk og góð við sjálf okkur og aðra. Og það er einmitt það sem við þurfum á að halda núna! Því fleiri sem eru í þessum hluta heilans því betra - því neikvæðni, ótti og reiði er meira smitandi en þessi vírus...og smitast þrátt fyrir að við höldum 2 metrum á milli okkar! Neikvæðni, ótti og reiði smitast nefnilega í gegnum símann og internetið.


Hér að neðan eru leiðir sem ég hef notað til að hjálpa mér að tæma stressfötuna mína og minnka þar með tímann og athyglina sem Dramadrottningin fær


🌟 Serotonin listinn

Nú þarf ég aðeins að útskýra...

Þegar við festumst í Dramadrottningunni slökkvum við á framleiðslu allra Gleðihormónanna. Ef við dettum niður í depurð og þunglyndi stoppar bara allt, en ef við spýtumst upp í streitu og kvíða framleiðum við allt of mikið af streituhormónum s.s. adreanlínu og kortisóli.


Eitt af hormónunum sem er svo mikilvægt fyrir góða andlega líðan er Serotonin. Og til þess að tryggja stöðugt flæði af þessu dásamlega hormóni er þrennt sem við getum gert:


  1. Jákvæð samskipti og samvera við fólk - sem er alveg hægt að gera í gegnum myndsímtal svona á tímum samkvæmisbanns.

  2. Jákvæð virkni - sem sagt gera hluti sem lætur okkur líða vel, hvort sem það er meðan við gerum það eða eftir á. Stundum er voðalega erfitt að drífa sig í hreyfingu eða í tiltektina...en vá hvað manni líður vel þegar það er búið. Verð að segja að tiltekt hefur fengið nýja merkingu eftir að ég tók eftir vellíðaninni sem það færir mér að vera í hreinu umhverfi ;-)

  3. Jákvæðar hugsanir - ég myndi segja að þetta væri erfiðasti parturinn, ég veit að mörg okkar stundum það að hugsa jákvætt og erum jafnvel búin að skilyrða okkur til þess sama í hverju við lendum...sem er mjög góður eiginleiki, en hins vegar er betra að þessar hugsanir snerti streng í brjósti okkar og komi frá hjartanu, til að þær hafi alvöru áhrif en verði ekki bara innantómir frasar. Með því að gera hin tvö atriðin fyrst muntu á endanum komast á þennan stað - að hugsa jákvætt.

Ég mæli með að setja markið á að gera 10 atriði á listanum þínum daglega!


Dæmi um nokkra hluti sem ég setti á listann minn:

- Ganga frá í eldhúsinu áður en ég fer að borða

- Sitja á bekk og hlusta á náttúruna

- Spjalla við fjölskyldu og vini

- Borða hollt og drekka vel af vatni

- Göngutúr

- Fara í heitt bað

- Tala ekki við neinn, vera ein með sjálfri mér

- Borga skuldir

- Taka góða rækt

- Hitta nýtt fólk


Hér geturðu fundið meira um Serotonin listann.



🌟 Djúpöndun

Er gríðarlega mikilvæg - ég nota oftast tækni sem kallast 4-7-8. Þessi öndun hægir á hjartslætti og er því mjög góð þegar við finnum að kvíðinn er að koma yfir okkur. Þar að auki fyllum við kroppinn af súrefni sem er nauðsynlegt fyrir heilann.

  1. Anda inn um nef, djúpt ofaní kviðinn, finna þyndina þrýsta niður og útávið - s.s. búa til bumbu - reyndu að láta axlirnar ekki lyftast mikið. Telur uppá 4 meðan þú andar inn.

  2. Halda andanum meðan þú telur uppá 7.

  3. Setja tunguna uppí góminn og anda frá þér út um munninn, kreista allt loft úr kviðnum meðan þú telur uppá 8.

Mæli með að gera þetta 2-4 sinnum áður en þú ferð að sofa á kvöldin og svo eftir því sem þú þarft yfir daginn þegar aðstæður virðast vera óyfirstíganlegar.



🌟 Þakklæti

Þegar við setjum athyglina á það sem við erum þakklát fyrir verðum við að færa okkur yfir í skynsama-vitsmunahlutann. Dramadrottningunni finnst ekkert vera jákvætt muniði og sér þar af leiðandi ekkert sem er hægt að vera þakklátur fyrir.


  • Hafðu litla bók og penna við rúmið og skrifaðu niður a.m.k 3 atriði sem þú ert þakklát fyrir áður en þú ferð að sofa. Getur verið eitthvað sem gerðist þann daginn eða bara eitthvað sem kemur upp í hugann í momentinu, þarf ekki að vera eitthvað risa atriði og má vera eitthvað sem hefur ekkert endilega með þig að gera eins og t.d. sólin kom upp í morgun.

  • Það er mjög mikilvægt að skrifa þetta niður, þá þarftu að setja smá effort í þetta og líklegra að þú gerir þetta í staðinn fyrir ef þú ætlar bara að hugsa um 3 atriði.

  • Mundu, við erum að ýta huganum í rétta hluta heilans...þennan jákvæða og lausnamiðaða og með því að taka eftir öllu sem er gott í kringum okkur neyðum við okkur til að fara í þennan góða hluta.



🌟 Viðhorf

Að fara inní daginn með rétt viðhorf getur breytt öllu!

Ég tala oft um að maður þurfi að klæða sig í rétt viðhorf þegar maður er að gera sig og græja á morgnana. Pældu aðeins í þessu...við burstum tennurnar, förum í sturtu, dressum okkur upp, lögum hárið og smellum upp andlitinu svo við séum nú frambærileg þegar við mætum fólki í gegnum daginn. En ef við erum svo bara hundfúl, neikvæð og með allt á hornum okkar skiptir þessi morgunrútína voðalega litlu máli, því fólk metur okkur ekki eftir því hvernig við lítum út heldur hvernig við látum því líða í návist okkar.


  • Meðan þú burstar tennurnar á morgnana ákveddu hver þú ætlar að vera í dag þ.e. hvernig þú vilt að fólki líði þegar það hefur verið í návist þinni - ég veit að mörg okkar eru ekki að hitta marga þessa dagana en það er hægt að skapa návist á svo margan hátt.

  • Hvað ætlarðu að segja við þá sem þú hringir í, hverju ættlarðu að pósta á Facebook, Instagram, Snappchat... Eða ertu að fara að kommenta á einhverja frétt á miðlunum. Er það bara svartnætti og bölmóður eða er það eitthvað sem mögulega gæti lyft einhverjum upp?

  • Mundu að það sem þú segir/skrifar ertu að segja við sjálfan þig í leiðinni. Þannig að ef þú ert endalaust að tönglast á heimsendaspádómi þá ertu alltaf að senda Dramadrottingunni þau skilaboð að hún hafi rétt fyrir sér...og þar með er auðvelt að festast í þeim hluta heilans, með öllu því neikvæða og leiðinlega sem því fylgir.



🌟 Hlátur

Æ við verðum nú bara að gera smá grín að þessu öllu er það ekki.

Ég veit að þetta er há alvarlegt ástand og erfitt að spá fyrir um hvernig þetta fer allt, en því meiri ástæða til að gera allt sem maður getur til að gera lífið léttara. Það hefur líka verið sýnt framá að hlátur og gleði styrki ónæmiskerfið, akkúrat það sem við þurfum öll núna.

Hláturinn lengir lífið - merkilegt hvað gömlu máltækin eru sönn.


Hér er linkur á nokkur fyndin video og myndir og annar



🌟 Stjórn á aðstæðum

Gerðu lista yfir það sem veldur þér áhyggjum og merktu við hvað af því er í þínum höndum þ.e. hverju getur þú stjórnað/breytt og hverju ekki.

Það er aðeins tvennt sem þú getur gert við það sem þú stjórnar ekki:

  1. Ákveðið að sleppa því bara lausu, getur hvort eð er ekkert gert í því.

  2. Ákveðið að láta það pirra þig og valda þér áhyggjum.

Valið er alltaf þitt!


Ég vona að eitthvað af þessu hjálpi þér að fara í gegnum þessu skrýtnu tíma sem eru í gangi. Mundu að það er eðlilegt að hafa áhyggjur en það er ekki gott að festast þar.

Ef þér finnst þú ekki ráða við aðstæðurnar og líður illa hvet ég þig eindregið til að leita þér hjálpar fyrr en seinna. Hér er t.d. listi yfir staði sem þú getur leitað til.


Það er líka mikilvægt að muna að fólk bregst mismunandi við í svona aðstæðum, stressfatan er mis full hjá okkur bara af daglega lífinu, þannig að þegar svona ástand bætist ofaná getur verið stutt í viðbrögðin. Sumir verða reiðir og árásagjarnir, aðrir daprir og hverfa jafnvel inní skel, enn aðrir gera grín og hlæja og sumir afneita jafnvel því sem er að gerast. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð.

Sýnum hvort öðru umhyggju og skilning, við vitum aldrei hvað er búið að ganga á og hvað er í fötunni.


En með því að hlúa vel að sálartetrinu þínu ertu betur í stakk búin til að hjálpa fólkinu í kringum þig.

Hang in there, við munum komast í gegnum þetta! Ég er í raun svoldið spennt að sjá hvernig þetta mun hafa áhrif á lífsviðhorfin mín, hvernig þetta mun breyta hegðun minni, breyta því sem skiptir mig máli í lífinu og sjá hvað ég mun læra af þessu tímabili.


Vitsmuna-skynsami hluti heilans í mér segir mér að þetta verði allt í lagi. Og að það komi fullt af góðum hlutum út úr þessu. Ég held að við eigum eftir að sjá breytta heimsbyggð til hins betra. Við höfum nú þegar orðið vitni að ótrúlegri manngæsku, fórnfýsi og kærleika. Höldum áfram að láta þau öfl ráða ferðinni og leggjum okkar af mörkum til að við komum út sem betri manneskjur og betri heimur ❤️

290 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page